Ódýrt um allt land

Ég hef oft furðað mig á þeirri þörf margra landa minna, og ekki síst fjölmiðlamanna, að rjúka upp hvert sumar og kvarta yfir því hve dýrt er að ferðast innanlands. Einhvern tíma skrifaði Valgerður Bjarnadóttir þingkona afar heimskulega  grein í Fréttablaðið um að hafa þurft að borga nokkur hundruð krónur fyrir kaffibolla sem hún fékk einhvers staðar á hálendinu eða á skíðasvæði, af því það var uppáhellt og borið fram í plastglasi eða leirfanti. Þetta var þá hið sama verð og borgað var fyrir kaffi í skárri bolla á góðu kaffihúsi í Reykjavík, Kaupmannahöfn eða Róm.

Ekki alls fyrir löngu sá ég í fréttum sjónvarpsins hinn árlega útreikning fréttastofunnar á því hvað kostar fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fara hringveginn á nokkrum dögum og búa í  tjaldi eða í bændagistingu. Miðað er við að fjölskyldan þurfi að kaupa svefnpoka og tjald og sá kostnaður allur talinn með. Ályktun fréttastofunnar verður ævinlega sú sama á hverju ári: Fjölskylduferð um landið kostar mann aleiguna - og greinilega er ætlast til að menn hugsi: Það er ódýrara að skreppa í helgarferð til Lundúna. 

En er þetta sambærilegt? Ég verð að segja að ég dáist að því fólki sem nennir að hafa fyrir því að taka á móti ferðafólki  sem slæðist um landið, upp um fjöll eða á skíðasvæði, bjóða því gistingu og hita handa því kaffi, fáeinar hræður á dag í nokkra daga á hverju ári. Ég dáist að þessu fólki sem leggur í að fjárfesta í aðstöðu og búnaði til þess arna og hanga yfir þessu fyrir skammarlítið kaup. Það er fáránlegt að bera verð á gistingu og kaffi á slíkum stað saman við verð á gistingu og kaffi í miðri stórborg þar sem látlaus straumur er af fólki alla daga allt árið. Gisting í svefnpokaplássi í kofa í Landmannalaugum og kaffisopi í leirfanti á íslensku hálendi ætti að kosta jafn mikið og gisting í uppábúnu rúmi og kaffibolli á góðu hóteli í miðri stórborg -- sama þótt annað sé uppáhellingur en hitt expressó í postulínsbolla með ítalskri aðferð. Verð á gistingu og kaffi á besta stað í stórborgum er fáránlegt -- og um það ættu menn að röfla, ef þeir vilja röfla yfir ferðakostnaði og verði á kaffi. 

Nú í sumar gistum við hjónin í uppábúnum rúmum á Hótel Djúpuvík á Ströndum (http://www.djupavik.com/is_hotel.php). Við gistum í tvær nætur og vorum í fullu fæði því við fengum nesti til dagsins áður en við fórum út á morgnana. Síðara kvöldið á hótelinu fengum við okkur bjór á barnum, dýrindis kvöldverð í veitingasalnum og vín með. Starfsfólkið var einstaklega alúðlegt og hjálpsamt, það gat frætt okkur um héraðið, menn og málefni, og var boðið og búið til að greiða úr alls kyns vandamálum sem starfsfólk dýrra hótela í stórborg mundi standa ráðalaust gagnvart. 

Fyrir allt þetta greiddum aðeins 34 þúsund krónur, sem er hlægilegt verð fyrir annan eins aðbúnað og atlæti á þessum fögru og fáförnu slóðum. Fyrir þessa fjárhæð má fá gistingu fyrir tvo án morgunverðar á lélegu hóteli á Manhattan í tvær nætur, ekki meira.

Eftir að hafa ferðast um landið í sumar og mörg fyrri sumur spyr maður sig: Hvað er þetta fjölmiðlafólk að hugsa? Hefur það aldrei komið upp fyrir Elliðaárnar öðru vísi en með sólgleraugu? Hafa flugfélögin kannski boðið því í laxveiði? -- eða er venjulegt kokteilboð í Leifsstöð nóg til að þetta fjölmiðlafólk láti lífið á landsbyggðinni líta út eins og fáránlegt peningaplokk í samanburði við helgarferð til erlendra stórborga? Hvað á maður að halda? 

Næst þegar íslenska sjónvarpið tekur sig til og reiknar út hvað það kostar fyrir íslenska fjölskyldu að ferðast um á Íslandi ættu fréttamenn að hafa fyrir því að upplýsa hvað það kostar að ferðast erlendis -- og þá með öllu. Ferðalög til útlanda kosta meira en bara flugmiða á lægsta verði með Express.

Njótið þess að gista hjá bændum eða á íslenskum hótelum á fáförnum slóðum. Það er hundódýrt.


Veiðisaga úr Kleifarvatni

Á hlýju sumarkvöldi í byrjun júlí skrapp ég í Kleifarvatn. Ég hafði aldrei farið áður til veiða í Kleifarvatni og fór mest til að skoða aðstæður og æfa köstin í kvöldkyrrðinni og blíðviðrinu. Fyrir sunnan vatnið voru allmargir bílar og fólk á öllum aldri við veiðar á bakkanum. Þar lagði ég mínum og spjallaði við veiðimenn (aðallega Hafnfirðinga) sem voru þarna við bíla sína að setja saman eða fara og sumir þekktu vatnið nokkkuð vel. Aðspurðir um veiði í vatninu sögðu þeir ekkert hafa gerst þá um kvöldið, allt dautt --  annars helst að það veiddist á maðk eða aðra beitu, jú og svo tæki hann oft spún. Það þýddi lítið að reyna með flugu, hann tæki ekki fluguna í þessu vatni. Þetta væri ekki eins og á Þingvöllum þar sem væri mikil fluga, hér væri engin fluga, og þess vegna sést heldur ekki fiskur vaka. Þó gat einn sagt þá sögu að í fyrra hefði maður fengið tvo á flugu þarna í grjótinu, og einhvern tíma hefði einhver komið gangandi sunnanað með fisk sem hann sagðist hafa fengið á flugu.

Menn litu vorkunnaraugum á mig þegar ég fór að setja saman og rölti útí. Var kominn í gallann rétt fyrir tíu og bjóst ekki við miklu. Langflestir voru með letingja, aðrir með spún og einn eða tveir þöndu sig með flugu fjarri öllum öðrum.

Ég óð þarna svolítið undan landinu, kannaði botninn og kastaði til málamynda út á vatnið, ekkert sást, ekkert gerðist og engin hreyfing hjá neinum á svæðinu. Hlýtt var í veðri, hægur andvari úr óvissri norðanátt og vatnið gárað en lygnur upp við landið hér og hvar. Heldur lægði eftir því sem leið á kvöldið. Einn tveggjaletingjaveiðimaður þarna á bakkanum, skammt frá bílnum mínum, reyndist afar viðræðugóður, sagði margar veiðisögur, aðallega úr Hítarvatni (þá var nú gott að kannast við það úr sögum Þórðar Helgasonar) og ég spjallaði stundarkorn við hann um vatnið. Sá var með flugustöngina í skottinu og mér fannst hann líta svo á að fluguna gætu menn notað sér til skemmtunar þegar búið væri að afla nóg og fiskurinn enn í tökustuði. Annars treysti hann mest á beitu.

Nokkru fyrir miðnætti kveð ég þennan góða mann og fer að pakka í bílinn því ég hafði huxað mér að mæta í vinnu daginn eftir. Þá hafði vindinn að mestu lægt en ekki sást neitt til fiska fyrir það. Ég var búinn að taka saman stöngina en ekki kominn úr vöðlunum þegar vinurinn kallar: Hann er að vaka hérna í víkinni!

Þá hugsaði ég: Fer maður í burtu og heim þegar fiskurinn byrjar að vaka? Hver eru nú forgangsgildin í lífi þínu, Baldur Sig., vinnan eða veiðin? Ég skal alveg viðurkenna það að ég þurfti að hugsa mig um í svolitla stund og í huga minn komu andlit og orð ýmissa veiðifélaga minna, formanns Ármanna og bróður míns.

En sem sagt: Ég setti saman aftur og eftir allskyns misheppnað fum og fát með þurrfluguboxið var ég kominn aftur á bakkann með Maticko black á taumnum og sé að fiskurinn vakir uppí harðalandi, innan við slóðina sem ég hafði vaðið skömmu áður. Á hálfs metra dýpi, ekki meira.

Eftir nokkur köst af bakkanum á vakandi fisk er ann á! Nærstaddir veiðimenn snúa sér við, fluguveiðimaður á þrítugsaldri, sem stóð útaf grjóttanga spölkorn í burtu, grípur farsíma og hringir í félaga sinn og brátt fylgjast allir með þessum fyrsta og eina sem fengið hefur fisk um kvöldið. Það reynist vera 50sm bleikja og baráttan er skemmtileg. Tveggjaletingjamaðurinn kemur með háf og hjálpar mér að landa og við leggjum fiskinn við bílinn hans. Ég á í fórum mínum annan Maticko og gef honum í þakklætisskyni fyrir hjálpina, ráðlegg honum að setja saman flugustöngina og kasta líka á þessa fiska sem sýna sig.

Brátt brunar jeppi eftir bakkanum með miklu vélarhljóði, kominn er félagi þess sem hringt hafði í farsímann, sem nú er vaðinn í land með miklu gösli og þeir félagar vilja með hávaða vita hvað hann tók, hvaða fluga, var stripp, var sökk? -- Ha, bleikja, segja þeir, ég hélt að hér væri bara urriði.

Þeir ösla útí aftur, sá með símann á sama stað og áður en sá á jeppanum veður útí í hinum enda víkurinnar yfir og út fyrir alla tökustaði, svo nærstaddur veiðimaður verður að biðja hann um að hafa hemil á sér til að styggja ekki vakandi fisk sem hann var að kasta á.

Það er eins og dregið hafi úr vaki við þessi læti en samt sé ég að enn eru fiskar á svipuðum stað og áður, en aðeins utar, og kasta aftur. Eftir nokkur köst er hann aftur á, og nú er það 40sm bleikja. Nú finnst mér komið nóg og bendi tveggjaletingjamanninum, sem nú er búinn að setja flugustöngina saman og farinn að kasta innanum letingjana sína, að koma hingað og halda áfram því enn eru fiskar á svæðinu.

Mennirnir á jeppanum ösla í land og vilja fá nánari upplýsingar um flugur, nú vilja þeir sjá fluguna, könnuðust ekki við Maticko þótt þeir hefðu þóst gera það áður, vildu fá staðfestingu á þessu með flotið og strippið, og fóru mikinn. Í þetta sinn svaraði ég öllum spurningum þeirra með einu svari: Aðalatriðið er að fara að öllu með gát, drengir mínir -- og ég held þeir hafi skammast sín örlítið því þeir fóru hægar útí eftir þetta.

Eftir þetta veiddist ekkert nema hvað tveggjaletingjamaðurinn náði einum eða tveimur litlum á sama stað og ég hafði verið. Ég hélt áfram að kasta svolítið á það sem ég hélt að væri vak hingað og þangað í vatninu en nú var í rauninni allt búið. Veðrið, birtan og kyrrðin var einstök og ég hef líklega verið við vatnið langt fram undir kl. 2.  Hafnfirðingarnir á svæðinu sögðu að þetta vatn væri svona, það gerðist allt á bilinu eitt til þrjú á nóttunni. Ég gat gefið tveggjaletingjamanninum annan Maticko í skaðabætur fyrir að hafa veitt fiskana sem hann hafði fyrstur komið auga á.

---

Nú er liðinn mánuður frá því þessi saga gerðist. Þegar ég fór að segja hana öðrum áttaði ég mig á að þetta er ekki bara veiðisaga. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug Draumalandið eftir Andra Snæ, þar sem hann talar um hvernig fólk festist í því sem það þekkir og hefur, og fer smám saman að trúa á það sem hið eina sanna og rétta. Andri Snær tekur meðal annars sem dæmi herstöðina í Keflavík sem Suðurnesjamenn og aðrir Íslendingar fóru smám saman að trúa á sem eina möguleikann til atvinnu og velmegunar. Væri hún ekki misstum við vinnuna og færum á vonarvöl.  Síðar fengu Austfirðingar samskonar trú á álver og óþarfi að rekja þá sorgarsögu. 

Þegar ég áttaði mig á að þessi saga er ekki bara veiðisaga rann upp fyrir mér að allar persónur hennar eiga sér samsvörun í þjóðþekktum Íslendingum, en nöfn þeirra getum við látið liggja milli hluta. 

 ------------------------------------------------------

Á þessum erfiðu tímum í þjóffélaginu er mikilvægara en nokkru sinni að allir sýni spillingu!
(Af eigendafundi Kaupþings í september 2008)

 


Hvar skyldi Nelson Mandela halda uppá afmælið sitt?

Ég hef stundum velt fyrir mér hvar ég er staddur í heiminum. Mér finnst að ef ég er Íslendingur og bý á Íslandi eigi sjónarhorn mitt á heiminn að vera íslenskt, en ekki til dæmis danskt, breskt, norskt, bandarískt eða japanskt. Ef sjónarhorn mitt tengist uppruna mínum og búsetu á þennan hátt finnst mér að ég að vita mest um mitt nánasta umhverfi, fólk það sem næst mér er, atburði sem næst mér gerast og mestu skipta fyrir mig og fjölskyldu mína, en minna og minna eftir því sem  fólk, lönd og tíðindi eru fjær. Þetta finnst mér vera eðlilegt sjónarhorn.

Hvar sem ég fer um heiminn hef ég tekið eftir að  sjónarhornið breytist og það sér maður best á fréttaflutningi í fjölmiðlum. Norðmenn hafa mestan áhuga á norskum fréttum, til dæmis veðrinu í Noregi, og þeir segja grannt frá þeim alþjóðlegu viðburðum sem vekja áhuga Norðmanna, olíuverði og þessháttar. Fjölmiðlar standa líka á misháum sjónarhóli. Sumir sjá um verold víða, aðrir ekki út fyrir túngarðinn hjá sér. Bretar segja meira frá breskum tíðindum, breskum stjórnmálum og breskum áhugamálum, t.d. krikket, sem aldrei sést norska sjónvarpinu, og Bandaríkjamenn segja fréttir frá sínum sjónarhóli sem okkur Evrópumönnum þykir iðulega furðulega lágur og sveitó -- miðað við að Bandaríkjamenn eru heimsveldi. 

Þegar ég horfi á íslenskt sjónvarp eða les blöðin velti ég oft fyrir mér hvort þeir samlandar mínir sem fengið hafa vinnu á fréttastofum hafi einhverja allt aðra sýn á heiminn en ég. Stundum er eins og þeir sjái heiminn út um þröngan glugga einhvers staðar í New York eða Washington, en ekki frá Íslandi.

Tilefni þessara hugleiðinga núna er það að í kvöld sá ég í fréttum Norska sjónvarpsins að Nelson Mandela átti afmæli í dag, hann varð 91 árs.  Sýndar voru myndir úr afmæli hins aldna höfðinga þar sem hann sást blása á afmæliskerti, umvafinn fjölskyldu sinni og vinum. Sýnd voru brot úr veislunni en þess getið að hann væri nú orðinn nokkuð hrörlegur og vildi helst vera heima. Í síðari hluta fréttarinnar var talað um áhrif hans og frægð um heimsbyggðina og minnst á haldið hefði verið uppá daginn víða um heim. 

Íslenska sjónvarpið sagði líka frá afmæli Nelsons Mandela. Í þeirri frétt var byrjað á að tala um að afmælinu hefði verið fagnað víða um heim, meðal annars í New York. Síðan beindust myndavélarnar af einhverjum hópi afmælisgesta í New York eins og þar hefði aðalafmælishátíðin átt að vera. Talað var um að reynt hefði verið að fá Mandela til að koma en því miður hefði hann ekki treyst sér í slíka langferð. Augljóst var af fréttinni að fréttastofa Íslenska Ríkissjónvarpsins harmaði það mjög að Nelson Mandela skyldi ekki hafa haft heilsu til að mæta í sitt eigið afmæli. 

Er nokkur furða þótt maður velti stundum fyrir sér hvar maður er staddur?

Lifið heil.


Bjarnargreiði

Ljót var sú frétt að Íslendingar hefðu aflífað bjarndýr sem hingað barst fyrir skömmu. Vissulega er ekkert gamanmál að fá hvítabjörn heim á hlað til sín en þar með er ekki sagt að nauðsynlegt sé að drepa þessar sjaldgæfu konungsgersemar hvenær sem færi gefst. Í okkar auðuga samfélagi eiga að vera til öll ráð og tæki til að vernda líf og limi þeirra sem fá björninn í heimsókn og jafnframt til að ná dýrinu lifandi. Úti um allan heim eru dýragarðar með menn á sínum snærum sem hafa atvinnu sína af því að fást við villidýr, án þess að drepa þau. Benda má á að Grænlendingar hafa mikla reynslu af að fanga hvítabirni og hví ekki að fá menn frá Kúlúsúk til að leggja á ráðin? Það getur varla verið svo flókið. 

Sá björn sem nú sefur í æðarvarpinu að Hrauni á Skaga gefur okkur tækifæri til að bæta fyrir þá þjóðarskömm að hafa drepið bjarndýrið um daginn.  Gefum honum líf!

Baldur Sigurðsson

 


mbl.is „Allt í biðstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófærð af manna völdum

Á þessum síðustu sumardögum, þegar ár flæða yfir bakka sína, er ekki úr vegi að hugleiða samgöngur. Við hjólreiðamenn komumst ekki hjá að hugleiða samgöngur á hverjum degi þar sem við geysumst milli borgarhluta, svifléttir og fljótir í förum, þótt samgöngukerfi borgarinnar sé alls ekki gert fyrir okkur. Reyndar eru fáeinir göngustígar í borginni sem einnig henta hjólreiðamönnum, en aðallega verðum við að notast við gangstéttir og leggja líf okkar í hættu þegar við þverum tví og fjórbreiðar umferðarelvur bílanna, sem alls staðar hafa forgang. 

Líf okkar hjólreiðamanna var ekkert sældarlíf á velmektardögum Sjálfstæðisflokksins í borginni. Alls staðar voru leiðir okkar hindraðar af þverhníptum köntum við gangstéttir, stígar og gangstéttir voru ekki sópuð nema í mesta lagi á þriggja mánaða fresti og voru því útbíuð í glerbrotum. Af þessum sökum var alvanalegt að spryngi á hjólinu á nokkra vikna fresti. Ekki þótti tiltökumál þótt umferðaræðar okkar, gangstéttir og stígar, væru sundurgrafnar vikum og mánuðum saman. 

Á dögum R-listans í borginni lagaðist ástandið heilmikið. Það var sópað oftar þannig að glerbrot urðu fáséð og nánast aldrei sprakk á hjólinu, og farið var að moka snjó af gangbrautum strax í morgunsárið svo að hjólreiðamenn kæmust til vinnu eins og aðrir. En mestu munaði að hinir þverhníptu gangstéttarkantar voru heflaðir niður svo nú er unnt að hjóla um borgina nokkurn veginn óhindrað á göngustígunum og yfir göturnar án þess að þurfa að brölta af hjólinu í hvert skipti sem farið er yfir götu. Hvað mundu bifreiðaökumenn segja ef þeir þyrftu að fara út úr bílnum við hver gatnamót?

En nú er Sjálfstæðisflokkurinn tekinn við aftur -- og það er ekki að sökum að spyrja: Glerbrotin eru aftur komin á gangbrautir og gangstéttir.  

Ófærð er yfirleitt kennd náttúruöflunum, ofankomu eða illviðri, en glerbrot á hjólastígum eru ófærð af manna völdum. Segja má nýjum borgaryfirvöldum til hróss að sl. vetur tókst þeim að viðhalda þeim vinnubrögðum R-listans í samgöngumálum að moka stígana fyrir kl. 9 þegar snjóaði. Nú óttast maður auðvitað að sæki í sama farið hjá Vilhjálmi og var þegar flokksbróðir hans Davíð réð hér ríkjum. Ég ætla samt að leyfa mér að vona ekki og skora á Vilhjálm og lið hans að sjá til þess að glerbrot verði ekki liðin þar sem umferð gangandi og hjólandi manna er að vænta, og að stígarnir verði mokaðir í morgunsárið þegar snjóar svo við komumst líka til vinnu. 

 Meira um samgöngumál síðar.

Lifið heil.

Baldur Sig. 

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Góðir lesendur. Þegar ég stofnaði þessa bloggsíðu var stutt í kosningar og allir hömuðust við að ausa úr skálum reiði sinnar yfir því sem aflaga fer í þjóðfélaginu. Einhvern veginn fannst mér ekki á bætandi því mér datt ekkert í hug nema eitthvert nöldur -- svo ég bara sleppti því.

Nú er liðið á sumar og kannski manni detti eitthvað í hug með haustinu.

Lifið heil.

Baldur Sig.  


Um bloggið

Baldur Sigurðsson

Höfundur

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson
Höfundur er áhugamaður um fluguveiði, hjólreiðar, kveðskap, íslenskt mál og íslenskt hugarfar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband