Ófærð af manna völdum

Á þessum síðustu sumardögum, þegar ár flæða yfir bakka sína, er ekki úr vegi að hugleiða samgöngur. Við hjólreiðamenn komumst ekki hjá að hugleiða samgöngur á hverjum degi þar sem við geysumst milli borgarhluta, svifléttir og fljótir í förum, þótt samgöngukerfi borgarinnar sé alls ekki gert fyrir okkur. Reyndar eru fáeinir göngustígar í borginni sem einnig henta hjólreiðamönnum, en aðallega verðum við að notast við gangstéttir og leggja líf okkar í hættu þegar við þverum tví og fjórbreiðar umferðarelvur bílanna, sem alls staðar hafa forgang. 

Líf okkar hjólreiðamanna var ekkert sældarlíf á velmektardögum Sjálfstæðisflokksins í borginni. Alls staðar voru leiðir okkar hindraðar af þverhníptum köntum við gangstéttir, stígar og gangstéttir voru ekki sópuð nema í mesta lagi á þriggja mánaða fresti og voru því útbíuð í glerbrotum. Af þessum sökum var alvanalegt að spryngi á hjólinu á nokkra vikna fresti. Ekki þótti tiltökumál þótt umferðaræðar okkar, gangstéttir og stígar, væru sundurgrafnar vikum og mánuðum saman. 

Á dögum R-listans í borginni lagaðist ástandið heilmikið. Það var sópað oftar þannig að glerbrot urðu fáséð og nánast aldrei sprakk á hjólinu, og farið var að moka snjó af gangbrautum strax í morgunsárið svo að hjólreiðamenn kæmust til vinnu eins og aðrir. En mestu munaði að hinir þverhníptu gangstéttarkantar voru heflaðir niður svo nú er unnt að hjóla um borgina nokkurn veginn óhindrað á göngustígunum og yfir göturnar án þess að þurfa að brölta af hjólinu í hvert skipti sem farið er yfir götu. Hvað mundu bifreiðaökumenn segja ef þeir þyrftu að fara út úr bílnum við hver gatnamót?

En nú er Sjálfstæðisflokkurinn tekinn við aftur -- og það er ekki að sökum að spyrja: Glerbrotin eru aftur komin á gangbrautir og gangstéttir.  

Ófærð er yfirleitt kennd náttúruöflunum, ofankomu eða illviðri, en glerbrot á hjólastígum eru ófærð af manna völdum. Segja má nýjum borgaryfirvöldum til hróss að sl. vetur tókst þeim að viðhalda þeim vinnubrögðum R-listans í samgöngumálum að moka stígana fyrir kl. 9 þegar snjóaði. Nú óttast maður auðvitað að sæki í sama farið hjá Vilhjálmi og var þegar flokksbróðir hans Davíð réð hér ríkjum. Ég ætla samt að leyfa mér að vona ekki og skora á Vilhjálm og lið hans að sjá til þess að glerbrot verði ekki liðin þar sem umferð gangandi og hjólandi manna er að vænta, og að stígarnir verði mokaðir í morgunsárið þegar snjóar svo við komumst líka til vinnu. 

 Meira um samgöngumál síðar.

Lifið heil.

Baldur Sig. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæl þú manna heilastur balsi minn góður - höfum líklega verið álíka lengi í lífhættu  hér á stórreykjavíkursvæðinu á hjólhestum vorum viljugum.  Hljótum að teljast karlar í krapinu að bjóða seigfljótandi blikkbeljustórfljótinu byrginn dag hvern. Ástandið er síst betra í Kópavogi hvort sem það tengist pólitík eður ei nema líklega er minna um glerbrot hér. Eitthvað hefur hin margumtalaða greind landans brugðist í samgöngumálum - það er dagljóst og lítið um sjáanleg batamerki. Hugarfarsbreytingar er þörf en varla er hún á næsta leiti.

Bestu kveðjur  -  natni 

Bjarni Þór Jónatansson (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 22:21

2 identicon

Ég hef líka tekið eftir því að í stjórnartíð Villa Vill í Reykjavík, er miklu oftar mótvindur þegar ég hjóla í vinnunna. - Og svo hefur hann yfirleitt snúið sér þegar ég held heim.

Þessu var öfugt farið í stjórnartíð R-listans sáluga.

Þá var nú gott að lifa.

Þórður Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldur Sigurðsson

Höfundur

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson
Höfundur er áhugamaður um fluguveiði, hjólreiðar, kveðskap, íslenskt mál og íslenskt hugarfar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 286

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband