Veiðisaga úr Kleifarvatni

Á hlýju sumarkvöldi í byrjun júlí skrapp ég í Kleifarvatn. Ég hafði aldrei farið áður til veiða í Kleifarvatni og fór mest til að skoða aðstæður og æfa köstin í kvöldkyrrðinni og blíðviðrinu. Fyrir sunnan vatnið voru allmargir bílar og fólk á öllum aldri við veiðar á bakkanum. Þar lagði ég mínum og spjallaði við veiðimenn (aðallega Hafnfirðinga) sem voru þarna við bíla sína að setja saman eða fara og sumir þekktu vatnið nokkkuð vel. Aðspurðir um veiði í vatninu sögðu þeir ekkert hafa gerst þá um kvöldið, allt dautt --  annars helst að það veiddist á maðk eða aðra beitu, jú og svo tæki hann oft spún. Það þýddi lítið að reyna með flugu, hann tæki ekki fluguna í þessu vatni. Þetta væri ekki eins og á Þingvöllum þar sem væri mikil fluga, hér væri engin fluga, og þess vegna sést heldur ekki fiskur vaka. Þó gat einn sagt þá sögu að í fyrra hefði maður fengið tvo á flugu þarna í grjótinu, og einhvern tíma hefði einhver komið gangandi sunnanað með fisk sem hann sagðist hafa fengið á flugu.

Menn litu vorkunnaraugum á mig þegar ég fór að setja saman og rölti útí. Var kominn í gallann rétt fyrir tíu og bjóst ekki við miklu. Langflestir voru með letingja, aðrir með spún og einn eða tveir þöndu sig með flugu fjarri öllum öðrum.

Ég óð þarna svolítið undan landinu, kannaði botninn og kastaði til málamynda út á vatnið, ekkert sást, ekkert gerðist og engin hreyfing hjá neinum á svæðinu. Hlýtt var í veðri, hægur andvari úr óvissri norðanátt og vatnið gárað en lygnur upp við landið hér og hvar. Heldur lægði eftir því sem leið á kvöldið. Einn tveggjaletingjaveiðimaður þarna á bakkanum, skammt frá bílnum mínum, reyndist afar viðræðugóður, sagði margar veiðisögur, aðallega úr Hítarvatni (þá var nú gott að kannast við það úr sögum Þórðar Helgasonar) og ég spjallaði stundarkorn við hann um vatnið. Sá var með flugustöngina í skottinu og mér fannst hann líta svo á að fluguna gætu menn notað sér til skemmtunar þegar búið væri að afla nóg og fiskurinn enn í tökustuði. Annars treysti hann mest á beitu.

Nokkru fyrir miðnætti kveð ég þennan góða mann og fer að pakka í bílinn því ég hafði huxað mér að mæta í vinnu daginn eftir. Þá hafði vindinn að mestu lægt en ekki sást neitt til fiska fyrir það. Ég var búinn að taka saman stöngina en ekki kominn úr vöðlunum þegar vinurinn kallar: Hann er að vaka hérna í víkinni!

Þá hugsaði ég: Fer maður í burtu og heim þegar fiskurinn byrjar að vaka? Hver eru nú forgangsgildin í lífi þínu, Baldur Sig., vinnan eða veiðin? Ég skal alveg viðurkenna það að ég þurfti að hugsa mig um í svolitla stund og í huga minn komu andlit og orð ýmissa veiðifélaga minna, formanns Ármanna og bróður míns.

En sem sagt: Ég setti saman aftur og eftir allskyns misheppnað fum og fát með þurrfluguboxið var ég kominn aftur á bakkann með Maticko black á taumnum og sé að fiskurinn vakir uppí harðalandi, innan við slóðina sem ég hafði vaðið skömmu áður. Á hálfs metra dýpi, ekki meira.

Eftir nokkur köst af bakkanum á vakandi fisk er ann á! Nærstaddir veiðimenn snúa sér við, fluguveiðimaður á þrítugsaldri, sem stóð útaf grjóttanga spölkorn í burtu, grípur farsíma og hringir í félaga sinn og brátt fylgjast allir með þessum fyrsta og eina sem fengið hefur fisk um kvöldið. Það reynist vera 50sm bleikja og baráttan er skemmtileg. Tveggjaletingjamaðurinn kemur með háf og hjálpar mér að landa og við leggjum fiskinn við bílinn hans. Ég á í fórum mínum annan Maticko og gef honum í þakklætisskyni fyrir hjálpina, ráðlegg honum að setja saman flugustöngina og kasta líka á þessa fiska sem sýna sig.

Brátt brunar jeppi eftir bakkanum með miklu vélarhljóði, kominn er félagi þess sem hringt hafði í farsímann, sem nú er vaðinn í land með miklu gösli og þeir félagar vilja með hávaða vita hvað hann tók, hvaða fluga, var stripp, var sökk? -- Ha, bleikja, segja þeir, ég hélt að hér væri bara urriði.

Þeir ösla útí aftur, sá með símann á sama stað og áður en sá á jeppanum veður útí í hinum enda víkurinnar yfir og út fyrir alla tökustaði, svo nærstaddur veiðimaður verður að biðja hann um að hafa hemil á sér til að styggja ekki vakandi fisk sem hann var að kasta á.

Það er eins og dregið hafi úr vaki við þessi læti en samt sé ég að enn eru fiskar á svipuðum stað og áður, en aðeins utar, og kasta aftur. Eftir nokkur köst er hann aftur á, og nú er það 40sm bleikja. Nú finnst mér komið nóg og bendi tveggjaletingjamanninum, sem nú er búinn að setja flugustöngina saman og farinn að kasta innanum letingjana sína, að koma hingað og halda áfram því enn eru fiskar á svæðinu.

Mennirnir á jeppanum ösla í land og vilja fá nánari upplýsingar um flugur, nú vilja þeir sjá fluguna, könnuðust ekki við Maticko þótt þeir hefðu þóst gera það áður, vildu fá staðfestingu á þessu með flotið og strippið, og fóru mikinn. Í þetta sinn svaraði ég öllum spurningum þeirra með einu svari: Aðalatriðið er að fara að öllu með gát, drengir mínir -- og ég held þeir hafi skammast sín örlítið því þeir fóru hægar útí eftir þetta.

Eftir þetta veiddist ekkert nema hvað tveggjaletingjamaðurinn náði einum eða tveimur litlum á sama stað og ég hafði verið. Ég hélt áfram að kasta svolítið á það sem ég hélt að væri vak hingað og þangað í vatninu en nú var í rauninni allt búið. Veðrið, birtan og kyrrðin var einstök og ég hef líklega verið við vatnið langt fram undir kl. 2.  Hafnfirðingarnir á svæðinu sögðu að þetta vatn væri svona, það gerðist allt á bilinu eitt til þrjú á nóttunni. Ég gat gefið tveggjaletingjamanninum annan Maticko í skaðabætur fyrir að hafa veitt fiskana sem hann hafði fyrstur komið auga á.

---

Nú er liðinn mánuður frá því þessi saga gerðist. Þegar ég fór að segja hana öðrum áttaði ég mig á að þetta er ekki bara veiðisaga. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug Draumalandið eftir Andra Snæ, þar sem hann talar um hvernig fólk festist í því sem það þekkir og hefur, og fer smám saman að trúa á það sem hið eina sanna og rétta. Andri Snær tekur meðal annars sem dæmi herstöðina í Keflavík sem Suðurnesjamenn og aðrir Íslendingar fóru smám saman að trúa á sem eina möguleikann til atvinnu og velmegunar. Væri hún ekki misstum við vinnuna og færum á vonarvöl.  Síðar fengu Austfirðingar samskonar trú á álver og óþarfi að rekja þá sorgarsögu. 

Þegar ég áttaði mig á að þessi saga er ekki bara veiðisaga rann upp fyrir mér að allar persónur hennar eiga sér samsvörun í þjóðþekktum Íslendingum, en nöfn þeirra getum við látið liggja milli hluta. 

 ------------------------------------------------------

Á þessum erfiðu tímum í þjóffélaginu er mikilvægara en nokkru sinni að allir sýni spillingu!
(Af eigendafundi Kaupþings í september 2008)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldur Sigurðsson

Höfundur

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson
Höfundur er áhugamaður um fluguveiði, hjólreiðar, kveðskap, íslenskt mál og íslenskt hugarfar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband