Ódýrt um allt land

Ég hef oft furðað mig á þeirri þörf margra landa minna, og ekki síst fjölmiðlamanna, að rjúka upp hvert sumar og kvarta yfir því hve dýrt er að ferðast innanlands. Einhvern tíma skrifaði Valgerður Bjarnadóttir þingkona afar heimskulega  grein í Fréttablaðið um að hafa þurft að borga nokkur hundruð krónur fyrir kaffibolla sem hún fékk einhvers staðar á hálendinu eða á skíðasvæði, af því það var uppáhellt og borið fram í plastglasi eða leirfanti. Þetta var þá hið sama verð og borgað var fyrir kaffi í skárri bolla á góðu kaffihúsi í Reykjavík, Kaupmannahöfn eða Róm.

Ekki alls fyrir löngu sá ég í fréttum sjónvarpsins hinn árlega útreikning fréttastofunnar á því hvað kostar fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fara hringveginn á nokkrum dögum og búa í  tjaldi eða í bændagistingu. Miðað er við að fjölskyldan þurfi að kaupa svefnpoka og tjald og sá kostnaður allur talinn með. Ályktun fréttastofunnar verður ævinlega sú sama á hverju ári: Fjölskylduferð um landið kostar mann aleiguna - og greinilega er ætlast til að menn hugsi: Það er ódýrara að skreppa í helgarferð til Lundúna. 

En er þetta sambærilegt? Ég verð að segja að ég dáist að því fólki sem nennir að hafa fyrir því að taka á móti ferðafólki  sem slæðist um landið, upp um fjöll eða á skíðasvæði, bjóða því gistingu og hita handa því kaffi, fáeinar hræður á dag í nokkra daga á hverju ári. Ég dáist að þessu fólki sem leggur í að fjárfesta í aðstöðu og búnaði til þess arna og hanga yfir þessu fyrir skammarlítið kaup. Það er fáránlegt að bera verð á gistingu og kaffi á slíkum stað saman við verð á gistingu og kaffi í miðri stórborg þar sem látlaus straumur er af fólki alla daga allt árið. Gisting í svefnpokaplássi í kofa í Landmannalaugum og kaffisopi í leirfanti á íslensku hálendi ætti að kosta jafn mikið og gisting í uppábúnu rúmi og kaffibolli á góðu hóteli í miðri stórborg -- sama þótt annað sé uppáhellingur en hitt expressó í postulínsbolla með ítalskri aðferð. Verð á gistingu og kaffi á besta stað í stórborgum er fáránlegt -- og um það ættu menn að röfla, ef þeir vilja röfla yfir ferðakostnaði og verði á kaffi. 

Nú í sumar gistum við hjónin í uppábúnum rúmum á Hótel Djúpuvík á Ströndum (http://www.djupavik.com/is_hotel.php). Við gistum í tvær nætur og vorum í fullu fæði því við fengum nesti til dagsins áður en við fórum út á morgnana. Síðara kvöldið á hótelinu fengum við okkur bjór á barnum, dýrindis kvöldverð í veitingasalnum og vín með. Starfsfólkið var einstaklega alúðlegt og hjálpsamt, það gat frætt okkur um héraðið, menn og málefni, og var boðið og búið til að greiða úr alls kyns vandamálum sem starfsfólk dýrra hótela í stórborg mundi standa ráðalaust gagnvart. 

Fyrir allt þetta greiddum aðeins 34 þúsund krónur, sem er hlægilegt verð fyrir annan eins aðbúnað og atlæti á þessum fögru og fáförnu slóðum. Fyrir þessa fjárhæð má fá gistingu fyrir tvo án morgunverðar á lélegu hóteli á Manhattan í tvær nætur, ekki meira.

Eftir að hafa ferðast um landið í sumar og mörg fyrri sumur spyr maður sig: Hvað er þetta fjölmiðlafólk að hugsa? Hefur það aldrei komið upp fyrir Elliðaárnar öðru vísi en með sólgleraugu? Hafa flugfélögin kannski boðið því í laxveiði? -- eða er venjulegt kokteilboð í Leifsstöð nóg til að þetta fjölmiðlafólk láti lífið á landsbyggðinni líta út eins og fáránlegt peningaplokk í samanburði við helgarferð til erlendra stórborga? Hvað á maður að halda? 

Næst þegar íslenska sjónvarpið tekur sig til og reiknar út hvað það kostar fyrir íslenska fjölskyldu að ferðast um á Íslandi ættu fréttamenn að hafa fyrir því að upplýsa hvað það kostar að ferðast erlendis -- og þá með öllu. Ferðalög til útlanda kosta meira en bara flugmiða á lægsta verði með Express.

Njótið þess að gista hjá bændum eða á íslenskum hótelum á fáförnum slóðum. Það er hundódýrt.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góðan daginn sendi þér kveðju á gestabókinni minni hefði nú getað gerð það hér en þú verður bara í sambandi ef þú fattar ekki málið.  Góða helgi.

Ía Jóhannsdóttir, 15.8.2009 kl. 07:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldur Sigurðsson

Höfundur

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson
Höfundur er áhugamaður um fluguveiði, hjólreiðar, kveðskap, íslenskt mál og íslenskt hugarfar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 264

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband